Mígreni

Mígreni er slæmt höfuðverkjakast sem er oft öðrum megin í höfðinu með þungum æðaslætti. Önnur einkenni mígrenis geta meðal annars verið ógleði, uppköst, sjóntruflanir og ljós- og hljóðnæmni. Migrenikast getur varað í nokkrar klukkustundir og í mjög slæmum tilvikum getur það varað í nokkra daga.

Enn er margt á huldu um orsakir mígrenis. Áður var talið að orsök mígrenis væri eingöngu vegna tímabundinnar æðavíkkunar í höfðinu. Nýlegri rannsóknir sýna hins vegar að orsök mígrenis sé einnig oförvun í þrenndartauginni, en þrenndartaugin er stærsta heilataugin.

Það eru ýmsir þættir sem geta valdið mígreni; erfðaþættir, hormónaójafnvægi og umhverfis-og lífsstílsþættir eins og stress og þreyta. Sumir fá fyrirboðaeinkenni eins og sjóntruflanir, máltruflanir og doða í andlit eða hendur.

Greining á mígreni er byggð á heilsufarssögu viðkomandi og er mígreni oft flokkað sem mígreni með fyrirboðaeinkennum eða mígreni án fyrirboðaeinkenna.